Samþykktu stóraukin útgjöld til varnarmála

Friedrich Merz, verðandi Þýskalandskanslari, greiðir hér atkvæði með frumvarpinu.
Friedrich Merz, verðandi Þýskalandskanslari, greiðir hér atkvæði með frumvarpinu. AFP/Ralf Hirschberger

Þýska sam­bandsþingið samþykkti í dag um­tals­verða breyt­ingu á stjórn­ar­skrá Þýska­lands, sem heim­il­ar Þjóðverj­um að skuld­setja sig meira í þágu varn­ar­mála.

Kristi­legu flokk­arn­ir CDU og CSU stóðu að breyt­ing­un­um ásamt Sósí­al­demó­krata­flokkn­um SPD og Græn­ingj­um, en þær fela í sér að hin svo­nefnda „skulda­bremsa“, sem ætlað er að koma í veg fyr­ir að þýska ríkið skuld­setji sig um of, verður sett til hliðar þegar kem­ur að fjár­mögn­un varn­ar­mála og varn­ar­innviða á næstu tíu-tólf árum. Þá verður sett­ur á fót sjóður upp á 500 millj­arða evra til þess að styrkja innviði lands­ins, auk þess sem þrír millj­arðar evra verða send­ir til Úkraínu.

Alls greiddu 513 þing­menn at­kvæði með stjórn­ar­skrár­breyt­ing­un­um og 207 gegn þeim. Náðu flokk­arn­ir þrír þar með til­skyld­um meiri­hluta, þar sem tveir þriðju þing­heims verða að styðja stjórn­ar­skrár­breyt­ing­ar.

Rúss­ar í stríði gegn Evr­ópu

Friedrich Merz, leiðtogi CDU og verðandi Þýska­landskansl­ari, sagði í umræðum á þing­inu að nauðsyn­legt væri að styrkja Þýska­land vegna árása Rússa á Evr­ópu. „Þetta er stríð gegn Evr­ópu og ekki bara stríð um yf­ir­ráð yfir landsvæði Úkraínu,“ sagði Merz meðal ann­ars. 

Þá sagði hann að ekk­ert kæmi í stað sterkra tengsla við Banda­rík­in, en ljóst væri að Evr­ópa þyrfti að gera meira til að tryggja sitt eigið ör­yggi, og þar ættu Þjóðverj­ar að vera í for­yst­u­sæti.

Sagði Merz jafn­framt að hin auknu út­gjöld Þjóðverja til varn­ar­mála yrði fyrsta stóra skrefið í átt að „nýju evr­ópsku varn­ar­sam­starfi“, sem gæti einnig haft þjóðir, eins og Breta og Norðmenn, sem hvor­ug­ar eru í ESB inn­an sinna vé­banda. 

Bor­is Pistorius, frá­far­andi varn­ar­málaráðherra SPD, sagði í umræðunum að hin auknu út­gjöld til varn­ar­mála væru rétt­læt­an­leg í ljósi þess að nú væru nýir tím­ar fyr­ir Evr­ópu, fyr­ir Þýska­land, fyr­ir NATO og fyr­ir kyn­slóðir framtíðar­inn­ar. Þá myndi aukið fram­lag Evr­ópu til varna sinna treysta tengsl­in við Banda­rík­in til lengri tíma.

Sam­bands­ráðið, efri deild þings­ins, mun fjalla um breyt­ing­arn­ar á föstu­dag­inn. 

mbl.is
Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert