Óslóarbúar nota mest kókaín allra Skandinava

Óslóarbúar nota mest kókaín allra Skandinava.
Óslóarbúar nota mest kókaín allra Skandinava. Ljósmynd/Drugabuse.com

Kókaínnotk­un Ósló­ar­búa hef­ur þre­fald­ast á fjór­um árum og kemst nú ekk­ert sveit­ar­fé­lag í Skandi­nav­íu með tærn­ar þar sem Ósló­ar­bú­ar hafa hæl­ana í neyslu efn­is­ins.

Þetta leiðir efna­grein­ing á af­rennslis­vatns frá heim­il­um og vinnu­stöðum í ljós og mæl­ist efnið þá í þvagi sem borg­ar­bú­ar sturta niður úr sal­ern­um sín­um. Í fyrra greindu til þess bær­ar stofn­an­ir af­rennslis­vatn í 120 evr­ópsk­um borg­um og bæj­um. Í Nor­egi urðu Ósló, Ber­gen og Þránd­heim­ur fyr­ir val­inu.

Við grein­ing­una var leitað eft­ir kanna­bis, am­feta­míni, nikó­tíni, vín­anda, heróíni, keta­míni, kókaíni, MDMA og metam­feta­míni.

„Við erum að tala um nanógrömm“

Í Nor­egi reynd­ist aukn­ing í notk­un kókaíns mest, lang­mest í höfuðborg­inni en Ber­gen fylg­ir í kjöl­farið. Þránd­heims­bú­ar reynd­ust hins veg­ar mun hófstillt­ari. Töl­urn­ar fyr­ir Ósló eru sam­bæri­leg­ar fyrri mæl­ing­um frá 2018, '19 og '20. Við könn­un­ina sem hér seg­ir af hafði neysl­an 2,8 fald­ast frá fyrri könn­un­um.

Tonje Gotten­berg Ska­al­vik hafði veg og vanda af grein­ing­un­um í Nor­egi, en meðal þess sem greina þurfti var hvort efn­in hefðu farið í gegn­um manns­lík­ama eða bara verið hent í sal­ernið.

„Magnið er ekki mikið, við erum að tala um nanógrömm,“ seg­ir Ska­al­vik af grein­ing­ar­vinn­unni sem hún kveður geta gefið nokkuð ná­kvæm­ar upp­lýs­ing­ar um neyslu á hverj­um stað. Niður­stöðurn­ar gefa þó eng­ar upp­lýs­ing­ar um kyn eða ald­ur neyt­enda né hve marg­ir neyti efna í hverj­um bæ eða borg. Sveifl­ur í neyslu milli daga sjást hins veg­ar mjög vel.

Grípa þurfi til taf­ar­lausra aðgerða

Linda Gran­lund, sviðsstjóri norska Heil­brigðis­eft­ir­lits­ins, Hel­sedirek­toratet, kveður töl­urn­ar áhyggju­efni og kveðst í viðtali við norska rík­is­út­varpið NRK vera með bögg­um hild­ar. Grípa þurfi til taf­ar­lausra aðgerða til að draga úr neyslu kókaíns með fræðslu um hættu­eig­in­leika efn­is­ins.

Engu að síður neita 95 pró­sent aðspurðra Norðmanna í könn­un sem náði til 16 til 30 ára að hafa neytt kókaíns.

NRK

NRK-II (klóakið seg­ir allt)

mbl.is
Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert