Heathrow-flugvöllur lokaður út daginn

Eldurinn olli því að rafmagnslaust varð á flugvellinum.
Eldurinn olli því að rafmagnslaust varð á flugvellinum. AFP

Alþjóðaflug­völl­ur­inn Heathrow á Englandi verður lokaður í all­an dag eft­ir að eld­ur sem braust út skammt frá vell­in­um olli raf­magns­leysi.

Flug­völl­ur­inn er sá fjöl­farn­asti í Bretlandi og Evr­ópu.

Flug­mála­yf­ir­völd eiga von á því að lok­un­in valdi mikl­um trufl­un­um næstu daga. Mun lok­un­in bitna á hundruðum flug­ferða og þúsund­um farþega.

120 vél­ar voru á leið til Heathrow

Í til­kynn­ingu á heimasíðu flug­vall­ar­ins seg­ir að til að tryggja ör­yggi farþega og starfs­manna verði flug­völl­ur­inn lokaður til klukk­an 23.59 í kvöld.

Farþegum er ráðlagt frá því að ferðast til flug­vall­ar­ins. Er þeim sagt að hafa sam­band við flug­fé­lagið sitt fyr­ir frek­ari upp­lýs­ing­ar.

Sam­kvæmt vefsíðunni Flig­htRa­dar24 mun lok­un­in hafa áhrif á minnst 1.351 flug­ferð til og frá flug­vell­in­um. Voru 120 flug­vél­ar í loft­inu sem stefndu á Heathrow þegar lok­un­in var til­kynnt.

Sam­kvæmt upp­lýs­ing­um á vefsíðu Isa­via hef­ur tveim­ur flug­ferðum til Heathrow verið af­lýst í dag, ann­ars veg­ar með Icelanda­ir klukk­an 7.35 og hins veg­ar með Brit­ish Airways klukk­an 11.45.

Ekki er búið að af­lýsa flug­ferðum fé­lag­anna til Heathrow síðar í dag. Sam­kvæmt vefsíðu Isa­via eru þau enn á áætl­un.

Eld­ur í tengi­virki

Slökkvilið Lund­úna seg­ir að mik­ill eld­ur hafi kviknað í tengi­virki við bæ­inn Hayes sem olli raf­magns­leys­inu.

Tíu dælu­bíl­ar og sjö­tíu slökkviliðsmenn börðust við eld­inn.

Þurftu um 150 íbú­ar að rýma hús­in næst tengi­virk­inu.

mbl.is
Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert