Skuggaflotafley kyrrsett

Eventin hefur legið í lamasessi úti fyrir Ré frá ársbyrjun …
Eventin hefur legið í lamasessi úti fyrir Ré frá ársbyrjun og hafa þýsk stjórnvöld nú kyrrsett skipið sem talið er tilheyra alræmdum skuggaflota Rússa. AFP/Samgönguslysanefnd Þýskalands

Þýsk stjórn­völd greindu frá því í dag að þau hefðu kyrr­sett gam­alt ol­íu­tank­skip sem talið er til­heyra hinum svo­kallaða „skugga­flota“ Rússa og hef­ur legið við fest­ar við þýsku eyj­una Ré í Eystra­salti (þýs. Rü­gen) síðan í janú­ar er það varð vél­ar­vana úti fyr­ir strönd­um eyj­ar­inn­ar.

Greindi þýska viku­ritið Der Spieg­el frá því að þýska toll­gæsl­an hefði lagt hald á skipið og farm þess, þótt emb­ætt­is­menn hafi neitað að staðfesta það og sagt að ekki hafi verið „gengið lög­form­lega frá tolla­mál­um enn þá“.

Fram kem­ur að þýsk yf­ir­völd hafi kyrr­sett tank­skipið, sem ber nafnið Event­in og sigl­ir und­ir fána Panama, en farm­ur þess er sagður 40 millj­óna evra virði, sem jafn­gild­ir tæp­lega 5,8 millj­örðum ís­lenskra króna. Leggja Þjóðverj­ar nú á ráðin um hvar og hvernig olíu­birgðum tank­skips­ins verði best landað án um­hverf­isóhappa og hvað verði um skipið sjálft.

Notað til sniðgöngu viðskipta­banns

„Toll­gæsl­an vinn­ur nú að af­greiðslu sinna mála og að teknu til­liti til ör­ygg­is­mála get­um við ekki tjáð okk­ur að neinu ráði um málið,“ sagði talsmaður þýska fjár­málaráðuneyt­is­ins í dag.

Talsmaður ut­an­rík­is­ráðuneyt­is­ins brigslaði Rúss­um hins veg­ar um að nota skip af þessu tagi, göm­ul tank­skip sem tal­in eru meg­in­uppistaða skugga­flot­ans áður­nefnda, til að sniðganga viðskipta­bann gagn­vart Rússlandi og fjár­magna með þeim hætti ólög­mætt inn­rás­ar­stríð sitt við Úkraínu­menn.

Síðar­nefndi talsmaður­inn, Sebastian Fischer, sagði Þýska­land og Evr­ópu­sam­bandið „vinna myrkr­anna á milli við að koma á frek­ari viðskiptaþving­un­um gegn rúss­neska skugga­flot­an­um.

Á lista yfir skugga­flota­för

Grein­end­ur á sviði ör­ygg­is­mála segja Rússa gera út hundruð skipa til að brjóta gegn viðskiptaþving­un­um vest­rænna ríkja gegn Rússlandi vegna Úkraínu­stríðsins.

Tank­skipið Event­in var á leið frá rúss­neskri höfn til Egypta­lands þegar bil­un í vél­um þess varð til þess að ekki var unnt að stýra för þess og hef­ur það því lónað úti fyr­ir Ré síðan í byrj­un árs.

Evr­ópu­sam­bandið hef­ur sett nafn skips­ins á lista yfir skip sem til­heyra rúss­neska skugga­flot­an­um.

mbl.is
Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert