Fulltrúar Bandaríkjanna og Úkraínu komu saman til fundar í Sádi-Arabíu í gær, til viðræðna um einhvers konar vopnahlé í varnarstríði Úkraínumanna gegn Rússum.
Í Washington segjast menn vonast eftir „raunverulegum framförum“ á meðan í Kreml er varað við „erfiðum samningaviðræðum“ og langri leið til friðar.
Forsetinn Donald Trump virðist vilja binda snöggan enda á stríðið og vonast til að viðræðurnar í Ríad, þar sem Bandaríkjamenn ræða við sendinefndir Úkraínu og Rússlands hvora í sínu lagi, komi af stað einhverjum straumhvörfum.
Í fyrstu áttu viðræðurnar að eiga sér stað samhliða, þar sem Bandaríkjamenn myndu bókstaflega ganga á milli sendinefndanna, en úr varð að þær verða hvorar á eftir öðrum.
Varnarmálaráðherrann Rústem Úmerov fer fyrir úkraínsku nefndinni. Í tilkynningu í gær sagði hann að á dagskrá væru tillögur að vernd orkuinnviða og annarra bráðnauðsynlegra mannvirkja, og að nefndirnar ynnu að fjölda flókinna tæknilegra atriða.
Háttsettur embættismaður innan sömu nefndar tjáði fréttaveitu AFP, gegn nafnleynd, að viðræðurnar gengju vel en bíða þyrfti dagsins í dag til að hægt yrði að draga ályktanir.
Af aðfaranótt sunnudags má aftur á móti draga þá ályktun að meðal Rússa sé lítill vilji til að hætta linnulausum árásum á saklausa borgara Úkraínu.
Þrír létust þá nótt í höfuðborginni Kænugarði þegar Rússar gerðu á hana umfangsmikla árás með fjölda sprengjuhlaðinna vélfygla.
Fimm ára telpa var á meðal þeirra sem létust, ásamt föður sínum. Þá varð áttræð kona miklum eldi að bráð, sem braust út eftir að rússneskur árásardróni hæfði íbúðablokk.
Hermt var í gær að öskur hennar hefðu glumið svo um hverfið, þar sem hún brann lifandi, að ekki færi á milli mála að þar hefðu Rússar myrt einn til viðbótar í innrásarstríði sínu.
Fjórir borgarar til viðbótar létust í árásum Rússa annars staðar í landinu. Enn fleiri særðust, þar af tíu í Kænugarði, og var ellefu mánaða barn á meðal þeirra.
Nóttina áður, í borginni Saporisjíu, drápu Rússar sautján ára stúlku og rúmlega fertugan föður hennar með sams konar árás.
Móðir hennar, sem var 38 ára, lést á sjúkrahúsi nokkrum klukkustundum síðar eftir að hafa verið dregin undan braki íbúðarhússins.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag.