Donald Trump Bandaríkjaforseti ætlar að leggja varanlega 25% tolla á alla innflutta bíla til að styðja við innlenda bílaframleiðslu. Þetta gæti reynst högg fyrir evrópska bílaframleiðslu, en einnig bandaríska.
Tollarnir taka gildi 2. apríl og ná til allra bíla sem ekki eru framleiddir á bandarískri grundu en að sögn New York Times er tæplega helmingur allra ökutækja sem seld eru í Bandaríkjunum innflutt.
„Þetta er mjög spennandi,“ sagði forsetinn er hann tilkynnti þetta á blaðamannafundi í Hvíta húsinu. Sagðist hann hafa það fyrir stafni að láta bandaríska framleiðendur koma upp fleiri verksmiðjum innanlands og þannig stuðla að „gríðarlegum vexti“ fyrir geirann.
Þetta gæti þó haft þær afleiðingar að birgðakeðjur bandarískra framleiðenda truflist, þar sem þeir kaupa gjarnan bílaparta erlendis, og verð á bílum gæti þannig hækkað.
„Þetta er varanlegt,“ sagði Trump. „En ef þú smíðar bílinn í Bandaríkjunum eru engir tollar.“
Tollarnir eru auk þess slæmar fregnir fyrir Evrópu, en bílaframleiðendur álfunnar seldu Bandaríkjamönnum bíla fyrir allt að að 38 milljóna evra í fyrra. Þar eiga Þjóðverjar stærstan hlut. Þannig gæti enn frekari streita myndast í milliríkjasamböndum.
Auk þess eru tollarnir skellur fyrir Japani og Kanada og viðskiptaráð Kanada hefur þegar mótmælt tollunum og sagt að þeir gætu kostað tugþúsundir manns vinnuna, bæði í Bandaríkjunum og Kanada.
Tesla, í eigu Elons Musks sem er einn helsti ráðgjafi forsetans, mun gjalda minna afhroð en aðrir bílaframleiðendur þar sem allir Teslubílar sem seldir eru í Bandaríkjunum eru framleiddir í Kaliforníu eða Texas.
Trump sagði aftur á móti að Musk hefði ekki haft nokkur áhrif á ákvörðun sína um að leggja á tolla.
„Hann hefur aldrei beðið mig um greiða í viðskiptum yfir höfuð,“ sagði Trump.
Hlutabréf í Teslu hafa fallið harkalega frá því þau náðu hápunkti í desember og sölutölur fara minnkandi í Evrópu. Í vikunni greindu fjölmiðlar einnig frá því að kínverski rafbílaframleiðandinn BYD hefði skákað Teslu á bifreiðamarkaði.