Volodimír Selenskí Úkraínuforseti segir of snemmt að segja til um hlutverk evrópskra hermanna í Úkraínu ef það tekst að knýja fram vopnahlé í innrásarstríði Rússa í Úkraínu.
Selenskí er staddur í París þar sem leiðtogafundur um málefni Úkraínu verður haldinn á morgun.
Hann og Emmanuel Macron Frakklandsforseti svöruðu spurningum fjölmiðla fyrr í dag.
Igor Zhovkva, aðstoðaryfirmaður forsetaskrifstofunnar í Úkraínu, tjáði fréttaveitunni AFP fyrr í dag að þörf væri á alvöru framlagi frá Evrópu til Úkraínu, svo sem evrópskum hermönnum sem væru tilbúnir að berjast í stað friðargæsluliða, náist að koma á vopnahléi.
Hann ítrekaði þó að úkraínsk yfirvöld gerðu sér grein fyrir að þeirra eigin hermenn yrðu á víglínunni ef til árása kæmi. Það væri þó þörf á öflugri nærveru Evrópu innan landsins til að tryggja öryggi.
Macron Frakklandsforseti hefur áður sagt að evrópskir herir gætu verið sendir til Úkraínu til að tryggja að vopnahléið verði virt.
Spurður um hvaða hlutverki evrópskir hermenn myndu sinna til að tryggja að vopnahléið yrði virt sagði hann það vera of snemmt að segja til um það.
Þá greindi Macron frá því í kvöld að Frakkar ætluðu ekki aflétta þeim refsiaðgerðum sem þeir hafa sett á Rússland strax, það væri of snemmt. Refsiaðgerðirnar væru háðar árásarstefnu Rússlands og því háðar vali Rússlands að láta af árásum og fylgja alþjóðalögum.
Þá ítrekaði Frakklandsforsetinn að Rússland þyrfti að samþykkja 30 daga vopnahlé skilyrðalaust.