Kröftug mótspyrna, sandsrok og hættulega langar birgðalestir geta gert það að verkum, að sókn Bandaríkjahers í Írak taki mun lengri tíma en bandarískir ráðamenn hafa gert ráð fyrir og því getur stríðið í Írak dregist í marga mánuði. Þá þurfa Bandaríkin að efla herstyrk sinn verulega í landinu til að tryggja sér sigur í átökunum, samkvæmt því sem fram kemur í bandaríska dagblaðinu Washington Post í dag.
Bandarískir embættismenn hafa fram að þessu haldið því fram að sókn Bandaríkjahers sé á áætlun en blaðið hefur þó eftir bandarískum embættismönnum að háttsettir menn innan Bandaríkjahers séu nú að yfirfara tímaáætlanir á grundvelli þessara þátta. Þá segja þeir að margir yfirmenn Bandaríkjahers telji nauðsynlegt að gera hlé á sókninni til Bagdad til að tryggja það að birgðir komist til hermanna í eyðimörkinni og til að ganga úr skugga um að vopn þeirra séu í lagi eftir sandsrok og átök undanfarinna daga.