Bandaríkjaher hefur neitað flugvél samtakanna Save the Children um lendingarleyfi í Norður-Írak en samtökin hugðust flytja hjálpargögn til Íraks, að því er segir í frétt Reuters. Talsmenn samtakanna í Bretlandi segja að með þessu hafi verið brotið gegn Genfarsáttmála og að þetta kosti börn lífið.
Í yfirlýsingu samtakanna, sem íslensku samtökin Barnaheill eiga aðild að, segir að þau hafi reynt í rúma viku að fá leyfi til að lenda vél sinni í íraska bænum Arbíl. Til hafi staðið að fljúga með lyf og sjúkragögn handa 40 þúsund manns og matvæli handa vannærðum börnum.
Bandarískur embættismaður sagði samtökunum að ekkert flug góðgerðarsamtaka eða hjálparstofnana yrði heimilað fyrr en svæðið væri orðið öruggt. Samtökin segja að Sameinuðu þjóðirnar hafi þegar lýst því yfir að Arbíl væri öruggt svæði.
Talsmaður neyðarhjálpar samtakanna, Rob MacGillivray, segir samtökin hafa heitið læknum í Írak aðstoð en þeir reyni hvað þeir geti að bjarga mannslífum þrátt fyrir mikinn skort á sjúkragögnum.
Samkvæmt Genfarsáttmála á hernámslið að vernda borgara, koma á lög og reglu og opna svæði fyrir mannúðaraðstoð.