Breskir ökumenn geta átt von á 1.000 punda sekt, jafnvirði rúmra 125.000 króna, frá og með 1. desember næstkomandi verði þeir gripnir með farsíma í hönd við akstur. Ökumaður gerist brotlegur við þá háttsemi að halda á síma, hafa hann skorðaðan milli eyra og axlar eða láta farþega halda síma við eyra sitt.
„Það er hættulegt að aka og nota farsíma. Það er orðin of kunnugleg sjón að sjá fólk akandi um með símann á lofti. Það drepur engan að missa af símtali en umferðarslys gæti gert það,“ sagði David Jamieson, ráðherra umferðaröryggismála í Bretlandi. Þegar nýju reglurnar taka gildi fá menn í upphafi 30 punda sekt en hún getur margfaldast og orðið allt að 1.000 pund fari málið fyrir dómstóla. Nýju reglurnar eru viðbót við eldri reglur sem gera lögreglu kleift að sekta menn fyrir gáleysislegan akstur jafnvel þótt þeir noti handfrjálsan búnað. Árið 2001 létust 3.450 manns í umferðarslysum á vegum Bretlands.