Anna Lindh var ein skærasta stjarna sænskra stjórnmála og ekki var vitað til þess að hún ætti sér neina hatursmenn. Hún naut mikilla vinsælda meðal þjóðar sinnar og utan Svíþjóðar var hún sennilega þekktari en nokkur annar forveri hennar í embætti.
Hún gegndi mikilvægu hlutverki á vettvangi heimsmálanna meðan á formennskumisseri Svíþjóðar í Evrópusambandinu, ESB, stóð, fyrri helming ársins 2001, en þá átti hún m.a. virkan þátt í að afstýra því að upp úr syði milli þjóðernisfylkinga í Makedóníu.
Sem málsvari utanríkisstefnu ESB miðlaði Lindh málum milli vopnaðra fylkinga í Makedóníu, sem voru til alls líklegar. Mynd af henni var eitt sinn brennd á götu í makedónsku höfuðborginni Skopje. Hún var á leið til fundar við serbneska forsætisráðherrann Zoran Djindjic þegar hann var myrtur fyrr á árinu. En það var mitt í hversdagsleikanum í Svíþjóð sem lífshættan beið hennar.
Ákvörðun Görans Perssons að skipa hana utanríkisráðherra í október 1998 kom nokkuð á óvart, en hún óx af verkum sínum og aflaði sér skjótt trausts, virðingar og vinsælda innanlands sem utan. Þótti hún harðdugleg og sýna uppbyggileg og áreiðanleg vinnubrögð. Jafnvel á vettvangi ESB, þar sem stór hluti starfs sænsks utanríkisráðherra fer nú fram, gat hún sér fljótt góðan orðstír. Rödd hennar hafði jafnvel vægi í Moskvu, þar sem hinn rússneski starfsbróðir hennar Ígor Ívanov hlustaði á tæpitungulausar athugasemdir hennar við ástandið í Tétsníu, og meðal ráðamanna í Washington, sem sænski utanríkisráðherrann lét líka heyra álit sitt af hreinskilni, nú síðast á máli sænsks ríkisborgara sem er meðal fanganna í Guantanamo-búðunum á Kúbu.
Fyrr á þessu ári kallaði hún George W. Bush Bandaríkjaforseta "vestrakúreka" ("lone ranger") fyrir ákvörðun hans um að gera innrás í Írak án samþykkis Sameinuðu þjóðanna. Hún var þó þeirrar skoðunar að í vissum tilvikum væri réttlætanlegt að beita hervaldi.
Anna Lindh var gift Bo Holmberg, sýslumanni í Södermanland. Synir þeirra eru tveir. Hún gætti þess allan stjórnmálaferil sinn að sinna fjölskyldunni af alúð og halda einkalífi sínu utan við kastljós fjölmiðlanna.