Svo virðist sem íbúar á Norðurlöndunum séu tilbúnari en aðrar þjóðir til að eiga skyndikynni, ef marka má niðurstöður rannsóknar sem smokkaframleiðandinn Durex hefur gert á kynlífsvenjum fólks víða um heim, segjast 71% Íslendinga, 70% Norðmanna og 68% Finna ekkert sjá athugavert við skyndikynni, samanborið við 37% Þjóðverja og 24% Indverja. Meðaltalið í könnuninni var 45%.
Könnunin virðist leiða það í ljós, að Taílendingar séu ánægðastir með kynlíf sitt. 92% þeirra Taílendinga, sem tóku þátt í könnuninni, sögðust vera ánægðir með kynlífið en á hæla þeirra komu Víetnamar (90%). Íbúar á Taívan ráku hins vegar lestina en 61% þátttakenda þar lýsti ánægju með kynlíf sitt.
Ungverjar virðast hins vegar virkastir í rúminu því þeir sögðust að jafnaði hafa kynmök 156 sinnum á ári. Meðaltalið í könnuninni var 127 sinnum en Taílendingar voru talsvert neðan við það með 105 skipti.
Durex segir að yfir 150 þúsund manns á aldrinum 16 til 55 ára í 49 löndum hafi tekið þátt í könnuninni sem nú var gerð í áttunda skipti. Durex segir að könnunin hafi leitt í ljós að áhugi á svonefndu „sýndarkynlífi" sem fer fram gegnum síma, SMS-skeyti og rafpóst, aukist stöðugt. Í Bandaríkjunum sögðust 54% þátttakenda hafa tekið þátt í slíku og 52% Breta. Minna var um þetta í Asíu og sögðust aðeins 6% Víetnama hafa prófað þetta.
Alger samstaða var um eitt mál. Að enski knattspyrnumaðurinn David Beckham væri kynþokkafyllstur karla og bandaríska leik- og söngkonan Jennifer Lopez væri kynþokkafyllsta konan. Þetta er annað árið í röð sem Lopez hlotnast þessi heiður en í fyrra var bandaríski leikarinn Brad Pitt hins vegar talinn kynþokkafyllsti karlinn.