Tiffany Roberts, 61 árs gömul bandarísk kona, talar nú með brezkum hreim eftir að hafa fengið heilablóðfall. Hún hefur þó aldrei til Bretlands komið. Þeir, sem bezt þekkja til, flokka hreiminn sem blöndu af cockney-ensku og mállýsku sem tíðkast til sveita í Vestur-Englandi.
Að sögn lækna þjáist Roberts, sem hefur alið allan sinn aldur í Indiana í Bandaríkjunum, af því sem kallað er "erlends hreims-heilkennið". Kemur það fram hjá sumu fólki, sem verður fyrir heilaskaða, og eru aðeins þekkt fáein tilvik af þessu tagi.
Tiffany Roberts uppgötvaði að hún var farin að tala með brezkum hreim eftir að hún fór að fá málið aftur er hún var að ná sér eftir heilablóðfall sem hún fékk á árinu 1999, að því er greint er frá á fréttavef BBC.
Fyrsta þekkta tilfellið kom upp í Noregi 1941. Þá varð ung kona fyrir heilaskemmdum eftir að hafa fengið sprengjubrot í höfuðið í loftárás. Þegar hún fór að tala aftur var það með þýzkum hreim, sem kallaði útskúfun yfir aumingja konuna.