Dularfullt málmhljóð hefur að undanförnu heyrst í alþjóðlegu geimstöðinni, að sögn talsmanns rússnesku geimferðastofnunarinnar. Hefur hann eftir geimförum, sem dvelja í stöðinni, að hljóðið minni á það þegar málmdós er kreist saman. Hafa geimfararnir leitað að orsökum hljóðsins en ekki fundið neinar skemmdir á stöðinni.
Alþjóðlegu geimstöðinni var skotið á loft árið 1998 í samvinnu 16 aðila, þar á meðal Bandaríkjamanna, Rússa, Japana, Kanadamanna og Evrópusambandsins. Nú dvelja þar tveir geimfarar, Bandaríkjamaðurinn Michael Foale og Rússinn Alexander Kaleri. Þeir fóru til stöðvarinnar í október og eiga að dvelja þar fram í apríl.
Hljóðið virðist koma frá þeim hluta stöðvarinnar sem smíðaður var í Rússlandi. Í október fullyrti hópur bandarískra vísindamanna, að vegna síaukinna bilana í tækjabúnaði í geimstöðinni væri erfitt að kanna gæði andrúmslofts og vatns og gera aðrar rannsóknir um borð.