Lög, sem gera hverjum manni skylt að fara í bað einu sinni á ári, eru aðeins ein af mörgum skrítnum lögum, sem enn eru í gildi í Kentucky í Bandaríkjunum.
Önnur lagagrein er á þessa leið: „Engin kona má vera í baðfötum einum klæða á þjóðvegum ríkisins nema henni fylgi a.m.k. tveir lögreglumenn eða hún sé vopnuð kylfu.“ Þessum lögum var síðar breytt þannig: „Ákvæði þessarar greinar eiga ekki við um konur, sem eru léttari en 35 kg eða þyngri en 100 kg. Þá eiga þau ekki við um merar.“
Flest eru þessi lög frá því á 19. öld og í einum segir til dæmis, að bannað sé að lita kjúkling, andarunga eða kanínu og bjóða síðan til sölu nema sex eða fleiri séu til sölu á sama tíma.