Átta þúsund deyja daglega af völdum alnæmis

Íbúar Moskvu sýndu HIV-smituðum stuðning sinn með göngu um borgina …
Íbúar Moskvu sýndu HIV-smituðum stuðning sinn með göngu um borgina í dag. Yfir 40 milljónir manna eru HIV-smitaðir og 3 milljónir manna hafa látist af völdum sjúkdómsins á árinu. AP

Að minnsta kosti sex milljónir HIV-smitaðra og alnæmisjúkra manna þurfa á ARV-lyfjameðferð að halda en einungis 3-400.000 hljóta hina dýru meðferð, að því er segir í frétt Reuters. Sameinuðu þjóðirnar ráðgera að verða þremur milljónum manna úti um lyfjameðferðina fyrir árslok 2005. „Daglega deyja 8.000 manns og okkur þykir það siðferðisleg skylda okkar að gera eitthvað í málinu,“ sagði Dr. Björn Melgaard, háttsettur embættismaður hjá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni, WHO, við blaðamenn í Bangkok. í dag.

Spár sem gefnar voru út af UNAIDS, stofnunar Sameinuðu þjóðanna sem fæst við alnæmisvarnir, í síðustu viku sýna að dauðsföll og ný smit hafa aldrei verið meiri en í ár og útlit er fyrir frekari aukningu þar sem alnæmisfaraldurinn heldur sunnanverðri Afríku í heljargreipum sínum auk þess að breiðast úr um Austur-Evrópu og Asíu. Frá árinu 1983 hafa 163 einstaklingar hér á landi verið greindir með HIV-smit. Enginn greindist með alnæmi hér á landi á síðasta ári og enginn lét lífið, samkvæmt upplýsingum á vefsíðu landlæknisembættisins.

3 milljónir smitaðra eru börn

Alþjóðlegi alnæmisdagurinn er í dag. Í fréttatilkynningu SOS-barnaþorpa segir að þrjár milljónir þeirra sem berjast við sjúkdóminn eru börn undir 15 ára aldri. Þá eru 14 milljónir barna munaðarlaus af völdum sjúkdómsins. Verslunin Debenhams í Smáralind mun í desember selja SOS-jólakúluna til styrktar SOS-barnaþorpunum en ágóðinn rennur til starfsemi í SOS-félagsmiðstöðvunum fyrir munaðarlaus börn af völdum alnæmis í fimm löndum Afríku; Zambíu, Zimbabve, Suður-Afríku, Svasílandi og Malaví.

„Þú kaupir tvær kúlur og hengir aðra þeirra á Jólatré allra barna á 1. hæð fyrir utan Debenhams í Smáralind, hina ferðu með heim og hengir á þitt eigið tré eða gefur einhverjum sem þér þykir vænt um. Takmarkið er að tryggja 150 börnum langvarandi öryggi og skjól gegn sjúkdómnum,“ segir í tilkynningu SOS.

SOS-barnaþorpin

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert