Í heimsókn hjá Saddam Hussein

Inngangurinn að heimkynnum Saddams Hussein.
Inngangurinn að heimkynnum Saddams Hussein. AP

Garðurinn er í órækt, þvotturinn er óhreinn, matarbúrið er tómt og eina skreytingin er veggspjald með mynd að örkinni hans Nóa. Felustaður Saddams Husseins á bóndabæ í norðurhluta Íraks líkist meira vistarveru sem hústökufólk hefur yfirgefið en glæsihöllum þeim sem Saddam Hussein bjó um sig í á valdaárunum. Fréttamenn skoðuðu í morgun staðinn þar sem Saddam fannst sl. laugardagskvöld. Kotið, sem er kofi gerður úr leirsteinum, er eitt herbergi með frumstæðu eldhúsi. Trjágreinar hylja þakið og gráleit málmhurð með hengilás er eina öryggið.

Innan dyra er óhreinn þvottur, gráar buxur og handklæði, sem hanga á þvottasnúru yfir rúmi með gólfmottu sem ábreiðu. Mynd af örkinni hans Nóa hangir yfir öðru rúmi, sem virðist ekki hafa verið notað nýlega. Í kassa á gólfinu eru síð arabísk skikkja, tveir nýir karlmannsstuttermabolir og tvennar hvítar „boxaranærbuxur“. Svartar mokkasíur og inniskór með gullspennum eru upp við vegg þar sem gamlar skólabækur liggja á gólfinu.

Lítill ísskápur í eldhúskróknum inniheldur nokkur Bounty-súkkulaðistykki, nokkrar pylsur og 7-up dós. Gamalt brauð er ofan á borðskrifli, hrísgrjónaleifar í potti, óhreinir diskar í vaskinum.

Á hillu fyrir ofan gaseldavél eru sápa, dós með kaffi í, munnskol, spegill og tvö Mars-súkkulaðistykki.

Fyrir utan kofann er skurður sem notaður hefur verið sem kamar. Garðurinn er þakinn rusli, plastpokum, tómum flöskum, rotnandi ávöxtum og brotnum stólgarmi.

Þegar bandarísku hermennirnir komu á staðinn sl. laugardagskvöld var hvít dula fyrir neðanjarðarfelustað Saddams og undir henni plastfat, málað í felulitum, með vírhandföngum á. Við hliðina á döðlutré hjá holunni er útblástursrör sem liggur ofan í vistarveru Saddams til loftræstingar. Til þess að hylja rörbútinn eru hengdar á hann salami-pylsa og gráfíkjur til þerris.

Tvö tjöld eru á landareigninni, hænsnakofi og ein kýr í gripahúsi. Pálmatré, appelsínutré og sólblómaakur eru við heimreiðina að kotinu, sem er um fimmtán kílómetra suður af Tikrit, bernskuslóðum Saddams Husseins.

Sérsveitarmennirnir, sem komu að kotinu á laugardagskvöld og höfðu leitað þar í um tuttugu mínútur þegar þeir fundu Saddam, fundu tvo AK-47 riffla, skjöl og 750.000 Bandaríkjadali í fórum hans. Gugginn einræðisherra með rytjulegt skegg, þreyttur á flóttanum og feluleiknum, ríghélt í hlaðna skammbyssu sína án þess að hleypa af skoti.

Herbergið ofanjarðar.
Herbergið ofanjarðar. AP
Inngangurinn í holu Saddams. Hermaðurinn heldur í plastílátið, sem notað …
Inngangurinn í holu Saddams. Hermaðurinn heldur í plastílátið, sem notað var til að hylja opið. AP
Eldhús forsetans fyrrverandi.
Eldhús forsetans fyrrverandi. AP
Á leið ofan í holu Husseins.
Á leið ofan í holu Husseins. AP
Úr garði Saddams.
Úr garði Saddams. AP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka