Færeyski Sambandsflokkurinn tapaði 2,3% fylgi

Lisbeth L. Petersen, formaður Sambandsflokksins, kemur hér á kjörstað í …
Lisbeth L. Petersen, formaður Sambandsflokksins, kemur hér á kjörstað í Þórshöfn í dag. Flokkur hennar fékk ekki eins mikið fylgi og spáð var. AP

Færeyski Jafnaðarflokkurinn hlaut 21,8% atkvæða í færeysku lögþingskosningunum og jók fylgi sitt frá síðustu kosningum um 0,9%. Hinn stjórnarandstöðuflokkurinn, Sambandsflokkurinn, tapaði hins vegar 2,3% fylgi frá því í síðustu kosningum, en lengi leit út fyrir að flokkurinn myndi bæta við sig fylgi. Hann er nú með 23,7% fylgi, en var með 26% í síðustu kosningum. Þjóðveldisflokkurinn fékk 21,7% fylgi og tapaði 2% atkvæða frá því í síðustu kosningum og Fólkaflokkurinn fékk 20,6% og tapaði 0,2%. 31.707 greiddu atkvæði, sem er 92,1% kjörsókn.

Fylgi annarra flokka var minna. Sjálfstjórnarflokkurinn fékk 4,6% fylgi, Miðflokkurinn 5,2% og Gleðiflokkurinn 2,3%, en hann bauð ekki fram í síðustu kosningum.

Stjórnarflokkarnir, Þjóðveldisflokkurinn og Fólkaflokkurinn, hafa samkvæmt þessu tapað 2,2% af fylgi sínu frá því í síðustu kosningum og er það minna en kosningaspár bentu til.

Að færeysku landsstjórninni standa nú fjórir flokkar, Fólkaflokkurinn, Þjóðveldisflokkurinn og tveir smáflokkanna, Miðflokkurinn og Sjálfstýriflokkurinn. Þeir halda meirihluta á þinginu samkvæmt úrslitum kosninganna, en óljóst er hvort þeir starfi saman áfram.

Hægt er sjá úrslit kosninganna á vef Færeyska útvarpsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert