Vírusvarnafyrirtæki sendi viðskiptavinum tölvuvírus

Unnið gegn árás tölvuvírusa. Myndin er óháð fréttinni.
Unnið gegn árás tölvuvírusa. Myndin er óháð fréttinni. mbl.is/Jim Smart

Finnskt fyrirtæki, F-Secure, sem starfar á sviði vírusvarna á Netinu, sendi fyrir slysni netpóst, sem innihélt tölvuvírus, til fleiri þúsunda viðskiptavina þess í Bretlandi. Að sögn talsmanns fyrirtækisins varð óhappið 26. febrúar sl. og hefur sært stolt starfsmanna þess, sem talið er vera framarlega á sviði vírusvarna í heiminum.

„Þetta var hrikalegt axarskaft og augljóslega eitthvað sem á alls ekki að gerast, hvað þá hjá fyrirtæki, sem vinnur að vírusvörnum eins og við,“ sagði talsmaðurinn, Mikko Hyppönen. Hinn ólánsami starfsmaður Lundúnaútibús F-Secure, sem varð valdur að óhappinu, sendi óvart frá sér tölvupóst, sem var sýktur af Netsky.B-orminum.

Það var þó lán í óláni fyrir F-Secure og viðskiptavini þess, að vírusinn var orðinn það gamall þegar hann var sendur út, að F-Secure-vírusvörnin í tölvu viðskiptavinanna varðist hinni óvæntu árás og varnaði því að tölvurnar sýktust.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert