Kona, sem reyndi að nota falsaðan milljón dala seðil til að kaupa vörur í Wal-Mart verslun í Atlanta í Bandaríkjunum, segir að um hafi verið að ræða misskilning - hún hafi haldið að seðillinn væri ófalsaður.
Bandaríski seðlabankinn prentar ekki milljón dala seðla en konan, sem heitir Alice Pike, segir að erfitt sé að fylgjast með því hvað stjórnvöld séu að gera.
Pike, sem er 35 ára, var handtekin í síðustu viku í Wal-Mart þegar hún reyndi að greiða með seðlinum. Um er að ræða seðla, sem hægt er að kaupa í leikfangabúðum. Pike sagðist hafa fengið seðilinn frá fyrrverandi manni sínum, sem er myntsafnari.
Pike sagði við AP, að hún hefði fyrst reynt að greiða fyrir vörur, sem kostuðu tæpa 1700 dali með tveimur gjafakortum en gjaldkerinn sagði henni að kortin væru aðeins 2,32 dala virði. Þá dró Pike milljón dala seðilinn upp og sagðist ekki hafa aðra peninga á sér.
Lögreglan segir í skýrslu að Pike hafi reynt að greiða fyrir vörurnar með falsaða seðlinum og beðið um afganginn til baka.