Þingkosningar hefjast á Indlandi í dag

Hópur kvenna bíður utan við kjörstað í Bangalore á Indlandi.
Hópur kvenna bíður utan við kjörstað í Bangalore á Indlandi. AP

Þingkosningar hefjast á Indlandi í dag og eru 670 milljónir manna á kjörskrá. Kosningarnar fara fram í fjórum áföngum og lýkur ekki fyrr en 10. maí. Ríkisstjórn landsins vonast til að njóta góðs af því að efnahagur landsins er með besta móti og einnig því að samskipti við nágrannaríkið Pakistan hafa batnað mjög á síðustu mánuði. Atal Behari Vajpayee, forsætisráðherra, boðaði raunar til kosninganna fimm mánuðum áður en kjörtímabilinu lauk.

Flokkur Vajpayees, Bharatiya Janata, fer fyrir Lýðræðislega þjóðarbandalaginu, sem er bandalag fjölda flokka. Vajpayee hefur lýst þeirri von að flokkur hans nái hreinum meirihluta í kosningunum nú svo ekki þurfi að koma til samsteypustjórn 22 flokka, eins og á kjörtímabilinu sem nú er að ljúka.

Janata hefur verið flokkur þjóðernissinnaðra hindúa en flokkurinn hefur reynt að draga úr þeirri ímynd og höfða til múslima í landinu. Kongressflokkurinn, undir stjórn Sonju Gandhi, segir hins vegar að stefna Janataflokksins grafi undan þeirri hefð að trúarbrögð tengist ekki stjórnmálum. Þá segir Kongressflokkurinn að efnahagsbatinn í landinu hafi ekki nýst fólki í sveitum landsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert