Bandaríska geimkannanum Gravity Probe-B var skotið á loft síðdegis í dag en honum er að sögn bandaríku geimferðastofnunarinnar, NASA, ætlað að prófa afstæðiskenningu Alberts Einsteins. Kannanum var skotið á loft frá Vandenberg herflugvellinum í Kalíforníu með Delta II eldflaug sem Boeing-verksmiðjurnar smíðuðu.
Að sögn Georges Dillers, talsmanns NASA, er kannanum ætlað að prófa kenningu Einsteins um að hlutir með mikinn massa hafi áhrif á tíma og rúm. Þannig bjagar jörðin t.d. tíma og rúm umhverfis sjálfa sig og því myndast þyngdarkrafturinn.
Þegar er búið að sanna kenningu Einsteins með óbeinum hætti en vegna þess að ekki hafa verið til nægilega nákvæm mælitæki hefur kenningin aldrei verið sönnuð með beinum hætti. Áform um prófunina komu fram árið 1959 en ekki hefur orðið af þessum leiðangri fyrr en nú.
Geimkanninn mun sveima umhverfis jörðina í 16 mánuði og miða sig við stjörnuna IM Pegasi. Í miðjum kannanum eru fjórar kúlur, á stærð við borðtenniskúlur, úr kvars en þær eru fullkomlega hringlaga. Til að tryggja nákvæmni verður að kæla kúlurnar og halda hitastiginu sem næst frostmarki í lofttæmdu rúmi sem flokkast undir það að vera stærsti kæliklefi sem sendur hefur verið út í geiminn. Þegar út í geiminn er komið og hreyfing komin á ætti afstaða kúlnanna (snúningsás) að breytast - nema því aðeins að Einstein hafi haft rangt fyrir sér.
Einstein setti fram kenningu 1916 þar sem segir að tími og rúm skapi form sem sveigist af efnisheildum á borð við jörðina, að jörðin bjagi þetta form. Þessi bjögun er ástæða þyngdaraflsins, segir Einstein. Tveimur árum síðar stungu aðrir upp á því að snúningur á slíkum massa ætti að draga rúm-tíma með sér, að vinda eða snúa uppbyggingu efnisins.
Sé kenningin rétt ætti snúningur jarðar, sem er 640 km fyrir neðan gervihnöttinn, að breyta staðsetningu kúlnanna með tilliti til hverrar annarrar.
Kanninn er þróaður af Stanfordháskóla í Kalíforníu og smíðaður af Lockheed Martin verksmiðjunum.