ESB og Bandaríkjamenn harma úrslit Kýpuratkvæðagreiðslu

Grískir talningarmenn telja kjörseðla í Níkósíu, höfuðborg Kýpur-Grikkja.
Grískir talningarmenn telja kjörseðla í Níkósíu, höfuðborg Kýpur-Grikkja. AP

Bæði Bandaríkjamenn og Írar, sem nú fara með forsæti Evrópusambandsins, hafa harmað úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar á Kýpur í dag, en þar höfnuðu Kýpur-Grikkir sameiningaráætlun Sameinuðu þjóðanna og hún tekur því ekki gildi þótt Kýpur-Tyrkir samþykktu hana. Kýpur-Grikkir fá því einir aðild að Evrópusambandinu 1. maí næstkomandi. Tassos Papadopoulos, forseti Kýpur-Grikkja, varaði við því í dag að erfiðir tímar væru framundan en sagðist enn vilja ná samningum við Kýpur-Tyrki. Abdullah Gul, utanríkisráðherra Tyrklands, sagðist vonsvikinn vegna úrslitanna í dag en Rauf Denktash, leiðtogi Kýpur-Tyrkja, sem var andvígur áætlun SÞ, sagði að umheimurinn ætti nú að hætta að reyna að þvinga þjóðarbrotin á eynni til að sameinast.

Bertie Ahern, forsætisráðherra Írlands, sagði í yfirlýsingu að hann harmaði að sameinað Kýpur muni ekki ganga í ESB 1. maí. Sagði hann að utanríkisráðherra sambandsins muni ræða málið á fundi í Lúxemborg á mánudag.

Richard Baucher, talsmaður bandaríska utanríkisráðuneytisins, sagði að þeir sem hefðu greitt sameiningaráætluninni atkvæði ættu hrós skilið, einkum meirihluti Kýpur-Tyrkja sem hefði sýnt hugrekki og greitt atkvæði með friði og sáttum. Hins vegar ylli það vonbrigðum að stór hluti Kýpur-Grikkja hefði greitt atkvæði gegn áætluninni.

Abdullah Gul, utanríkisráðherra Tyrklands, hvatti til þess að í kjölfar niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar yrði viðskiptaþvingunum aflétt af Kýpur-Tyrkjum í ljósi þess að þeir hefðu lýst vilja til að ná samkomulagi í Kýpurdeilunni.

Rauf Denktash, leiðtogi Kýpur-Tyrkja, sagði að niðurstaðan sýndi að þeir sem hefðu talið að hægt yrði að ná samkomulagi milli þjóðarbrotanna í Kýpur, væru úr takt við raunveruleikann. Vísaði hann á bug kröfum þeirra Kýpur-Tyrkja sem studdu áætlunina, þar á meðal Mehmet Ali Talat, forsætisráðherra Kýpur-Tyrkja, um að hann segði af sér en Denktash barðist gegn samkomulaginu. Sagði hann að niðurstaðan tryggði að ríki Kýpur-Tyrkja á norðurhluta Kýpur muni þróast áfram. Fyrir því hefði hann barist og því væri engin ástæða til að hann segði af sér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert