Fylgi við Michael Howard, leiðtoga breska Íhaldsflokksins, er nú orðið jafn mikið og fylgi við Tony Blair, forsætisráðherra og leiðtoga Verkamannaflokksins, að því er kemur fram í skoðanakönnun sem blaðið Daily Telegraph birtir í dag. Þá nýtur Íhaldsflokkurinn einnig meira fylgis en Verkamannaflokkurinn.
Samkvæmt könnuninni njóta Blair og Howard báðir 29% fylgis þegar spurt var hver þátttakendur teldu vera best hæfan til að gegna embætti forsætisráðherra. 29% aðspurðra voru óákveðin en 13% sögðu að Charles Kennedy, leiðtogi Frjálslynda demókrataflokksins, væri hæfastur.
Þá sögðust 39% aðspurðra myndu kjósa Íhaldsflokkinn í þingkosningum, ef kosið væri nú, 35% sögðust myndu kjósa Verkamannaflokkinn og 19% Frjálslynda demókrataflokkinn. Hefur fylgi Íhaldsflokksins aukist um 1 prósentustig og fylgi Verkamannaflokksins hefur dalað um 1 prósentustig frá samskonar könnun í síðasta mánuði.
64% sögðust óánægð með það hvernig bresk stjórnvöld hefðu tekið á vandamálum í Írak og Miðausturlöndum.