Íhaldsflokkurinn nýtur meira fylgis en Verkamannaflokkurinn

Michael Howard, leiðtogi breska Íhaldsflokksins.
Michael Howard, leiðtogi breska Íhaldsflokksins. AP

Fylgi við Michael Howard, leiðtoga breska Íhaldsflokksins, er nú orðið jafn mikið og fylgi við Tony Blair, forsætisráðherra og leiðtoga Verkamannaflokksins, að því er kemur fram í skoðanakönnun sem blaðið Daily Telegraph birtir í dag. Þá nýtur Íhaldsflokkurinn einnig meira fylgis en Verkamannaflokkurinn.

Samkvæmt könnuninni njóta Blair og Howard báðir 29% fylgis þegar spurt var hver þátttakendur teldu vera best hæfan til að gegna embætti forsætisráðherra. 29% aðspurðra voru óákveðin en 13% sögðu að Charles Kennedy, leiðtogi Frjálslynda demókrataflokksins, væri hæfastur.

Þá sögðust 39% aðspurðra myndu kjósa Íhaldsflokkinn í þingkosningum, ef kosið væri nú, 35% sögðust myndu kjósa Verkamannaflokkinn og 19% Frjálslynda demókrataflokkinn. Hefur fylgi Íhaldsflokksins aukist um 1 prósentustig og fylgi Verkamannaflokksins hefur dalað um 1 prósentustig frá samskonar könnun í síðasta mánuði.

64% sögðust óánægð með það hvernig bresk stjórnvöld hefðu tekið á vandamálum í Írak og Miðausturlöndum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert