George W. Bush, Bandaríkjaforseti, sagði í viðtali við arabísku al-Hurra gervihnattasjónvarpsstöðina í dag, að honum þætti misþyrmingar, sem íraskir fangar hafa sætt af hálfu bandarískra hermanna, viðbjóðslegar. „Írakar verða að skilja, að ég hef viðbjóð á svona hegðun," sagði hann í viðtali, sem sent var út frá Hvíta húsinu. Bætti Bush við að málið yrði rannsakað og hinum seku refsað.
Með viðtölunum, og fleiri viðtölum við arabíska fjölmiðla, er Bandaríkjastjórn að reyna að draga úr áhrifum mynda, sem birst hafa að undanförnu og sýna niðurlægjandi meðferð á íröskum föngum.
Bush sagði í viðtalinu, að bandarísku þjóðinni þætti það athæfi, sem sést hefði á umræddum myndum, jafn andstyggilegt og sér. Bush sagði að samhugur ríkti meðal bandarísku þjóðarinnar. Bandaríkjamenn tryðu á frelsi og í þeirra huga skiptu allir einstaklingar máli. Bandaríkjamenn hefðu sent hermenn til Íraks til að vernda frelsið, „góða og heiðvirða borgara sem hjálpa Írökum á hverjum degi.
Bush sagðist bera fullt traust til Donalds H. Rumsfelds, varnarmálaráðherra sínum. Sagðist Bush hafa rætt við Rumsfeld í dag að og sagt honum að leita sannleikans og segja Írökum og umheiminum sannleikann. „Við höfum ekkert að fela," sagði hann.
Sjónvarpsstöðin al-Hurra er m.a. kostuð af Bandaríkjunum og almennt er litið á hana sem áróðursstöð á Persaflóasvæðinu. Bush mun einnig síðar í dag veita arabísku stöðinni Al-Arabiya viðtal. Sú stöð hefur höfuðstöðvar í Dubai og nýtur vinsælda meðal Araba.