15 ár liðin frá aðgerðunum á Torgi hins himneska friðar

Lögreglumenn draga kínverska fánann að húni á Torgi hins himneska …
Lögreglumenn draga kínverska fánann að húni á Torgi hins himneska friðar í morgun. AP

Að minnsta kosti 16 manns voru handteknir á Torgi hins himneska friðar í Peking í Kína í morgun en í dag er 15 ár liðin frá því her og lögregla létu til skarar skríða gegn mótmælendum á torginu, sem kröfðust lýðræðisumbóta, með þeim afleiðingum að hundruð manna að minnsta kosti, og sennilega þúsundir, létu lífið. Á þeim 15 árum sem liðin eru hafa stjórnvöld orðið við mörgum þeirra krafna sem gerðar voru þá og afnumið reglur sem mæltu fyrir um hvar Kínverjar mættu vinna og hverjum þeir gætu gifst. Þá hafa efnahagsumbætur leitt til samfellds hagvaxtar undanfarinn áratug.

En Kommúnistaflokkurinn í Kína, sem braut mótmælin á torginu á bak aftur 4. júní 1989, leyfir enn enga sjálfstæða stjórnmálastarfsemi og hefur hneppt í fangelsi eða rekið úr landi flesta þá andófsmenn sem kveðið hefur að í Kína.

Blaðamenn sáu sextán miðaldra karlmenn og konur handtekin á torginu í morgun og leidd í lögreglubíla. Ekki var ljóst hvort handtökurnar tengdust uppreisnarafmælinu eða hvort öryggissveitir voru að reyna að stöðva minningarathafnir um þá sem létust í aðgerðunum fyrir 15 árum.

Torgið var opið almenningi og hundruð ferðamanna gengu þar um og nutu góða veðursins. Þótt fleiri verðir væru á torginu en venjulega var öryggisgæsla frekar lítil miðað við hvernig hún er á öðrum pólitískt viðkvæmum dögum.

Í aðdraganda afmælisins hafa kínversk stjórnvöld handtekið þekkta mótmælendur og ættingja þeirra sem létu lífið árið 1989 og skipað þeim að yfirgefa Peking.

Í morgun voru útsendingar CNN til hótela og íbúða útlendinga í Peking truflaðar ítrekað þegar sjónvarpsstöðin fjallaði um aðgerðirnar fyrir 15 árum.

Mótmælaaðgerðir hafa hins vegar verið annarstaðar í heiminum, svo sem í Hong Kong, Washington og Taipei.

Árið 1989 fóru tugir þúsunda út á Torg hins himneska friðar í miðborg Peking til að krefjast þess að stjórnmálakerfið yrði opnara og opinber spilling yrði stöðvuð. Harkaleg viðbrögð stjórnvalda, sem sendu hermenn og skriðdreka á torgið, leiddi til þess að stjórnvöld í Kína voru einangruð á alþjóðavettvangi og mikil umbrot hófust í kínverskum stjórnmálum.

Zhao Ziyang, aðalritari kínverska kommúnistaflokksins, varð undir í valdabaráttu og er enn í stofufangelsi. Deng Xiaoping, leiðtogi flokksins, valdi Jiang Zemin, sem þá var leiðtogi flokksins í Shanghai, til að vera eftirmann Zhaos og Ziang leiddi Kínverja í áratug þar til hann lét af embætti forseta Kína á síðasta ári.

Stjórnvöld í Peking eru enn að reyna að koma á eðlilegum samskiptum við önnur ríki og reyna nú m.a. að fá Evrópusambandið til að aflétta vopnasölubanni sem sett var á eftir atburðina 1989. Kínverskir leiðtogar gera nú tilraunir með það sem kallað er þorpslýðræði þar sem Kínverjar geta kosið embættismenn í lægra sett störf en þeir sem kosnir eru verða samt að framfylgja opinberri stefnu.

Hu Jintao, sem tók við forsetaembætti á síðasta ári, hefur hvatt til þess að þjóðfélagið verði „sósíalískara." En það þýðir að flokkurinn eigi að taka meira tillit til þarfa fólksins en ekki að leyfa eigi andófsmönnum að starfa og mynda stjórnarandstöðu.

Kínverskir leiðtogar segja að aðgerðirnar 1989 og eins flokks kerfið í landinu séu forsendur þess efnahagsvaxtar sem nú er Kína og neita að verða við kröfum um að hætta að skilgreina mótmælin sem gangbyltingaruppþot.

Lögreglumaður handtekur mótmælanda á Torgi hins himneska friðar.
Lögreglumaður handtekur mótmælanda á Torgi hins himneska friðar. AP
Námsmaður býður skriðdrekum birginn á Torgi hins himneska friðar fyrir …
Námsmaður býður skriðdrekum birginn á Torgi hins himneska friðar fyrir 15 árum. AP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert