Leiðtogar átta helstu iðnríkja heims, svonefndra G8-ríkja, hvetja til þess að Evrópusambandið, Sameinuðu þjóðirnar, Bandaríkin og Rússar, sem hafa reynt að miðla málum í deilum Ísraelsmanna og Palestínumanna, kvartettinn svonefndi, haldi fund á svæðinu síðar í þessum mánuði til að reyna að ýta friðarumleitunum úr vör á ný. Í yfirlýsingu leiðtogafundarins er fagnað áætlun ísraelskra stjórnvalda um að fara frá Gasasvæðinu og hluta Vesturbakkans. Því er jafnframt heitið að vinna að framgangi friðarvegvísisins svonefnda, áætlunar sem lögð var fram á síðasta ári um að binda enda á deilurnar fyrir botni Miðjarðarhafs.
Í ályktun leiðtogafundarins segir að kvartettinn ætti að ræða við fulltrúa Ísraelsmanna og Palestínumanna og leggja fram áætlanir um framgang friðarvegvísisins.
Engar upplýsingar lágu fyrir í dag um hvar og hvenær þessi fundur gæti átt sér stað. AFP fréttastofan segir, að embættismenn bandaríska utanríkisráðuneytisins hafi virst nokkuð undrandi á þessari yfirlýsingu en sagt að hugsanlega væri hægt að halda slíkan fund í tengslum við leiðtogafund Evrópusambandsins á Írlandi eða leiðtogafund NATO í Istanbul sem báðir eiga að fara fram í lok júní.
Í gærkvöldi samþykktu leiðtogar G8-ríkjanna áætlun um að vinna að lýðræðisumbótum í Miðausturlöndum.