Sharon stendur af sér vantrausttillögu

Ariel Sharon ráðfærir sig við ráðherra sína í þinginu í …
Ariel Sharon ráðfærir sig við ráðherra sína í þinginu í dag. AP

Ariel Sharon, forsætisráðherra Ísraels, stóð í dag af sér vantrausttillögu sem borin var fram á ísraelska þinginu vegna tillögu hans um brotthvarf frá landtökubyggðum á Gaza-svæðinu. Alls greiddu 37 þingmenn af 120 atkvæði gegn vantrausttillögunni en 22 með henni. Hinir sátu hjá.

Hið öfga hægri sinnaða Þjóðarbandalag lagði fram vantrausttillöguna. Bandalagið átti sæti í ríkisstjórn þar til fyrr í mánuðinum þegar Sharon rak ráðherrana Avigdor Lieberman og Benny Elon til að tryggja að tillagan um brotthvarf yrði samþykkt.

Sigur Sharons er rakinn til þess að Verkamannaflokkurinn, helsti stjórnarandstöðuflokkurinn, ákvað að taka ekki þátt í atkvæðagreiðslunni. Talið er að flokknum verði brátt boðið sæti í ríkisstjórn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert