Bush segir ógn hafa stafað af Saddam

Davíð Oddsson og George W. Bush í Hvíta húsinu í …
Davíð Oddsson og George W. Bush í Hvíta húsinu í dag. AP

Ógn stafaði af Saddam Hussein, fyrrum forseta Íraks og hann reyndi að verða sér úti um gereyðingarvopn. Þetta ítrekaði George W. Bush, Bandaríkjaforseti í dag á blaðamannafundi eftir fund hans og Davíðs Oddssonar í Hvíta húsinu. Fyrr í dag viðurkenndi Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, að ef til vill muni engin gereyðingarvopn finnast í Írak.

„Ég veit að Saddam Hussein var ógnun. Hann var ógnun við sitt nánasta umhverfi, við almenning í Írak, hann veitti hryðjuverkamönnum skjól,“ sagði Bush.

„Saddam bjó yfir ásetningi, hann hafði getu“ til þess að framleiða vopnin, sagði Bush og bætti við: „Heimurinn er betri staður án Saddams Hussein á valdastóli. Og það verður friðvænlegra í heiminum þegar íraska stjórnin, undir forystu (Iyad) Allawis kemur fram og kosningar verða haldnar.“ Bandaríkin og Bretland hófu hernaðaraðgerðir gegn Írak í mars á síðasta ári, m.a. á þeirri forsendu að talið væri að Írakar réðu yfir birgðum af ólöglegum vopnum. Blair viðurkenndi hins vegar í breska þinginu í dag, að hann vissi ekki hvað orðið hefði um þessi vopn. Þau kynnu að hafa verið fjarlægð, þau hafi hugsanlega verið falin eða þeim eytt.

Bandaríska dagblaðið The New York Times sagði í dag, að bandaríska leyniþjónustan, CIA, hefði ekki skýrt Bush frá því, að sumir íraskir vísindamenn hefðu sagt að Saddam hefði hætt við öll áform um framleiðslu gereyðingarvopna. Hafði blaðið eftir ónafngreindum heimildarmönnum, að þetta hefði komið í ljós í rannsókn þingnefndar á upplýsingum sem CIA aflaði um Írak áður en stríðið hófst.

Þegar Bush var spurður um þetta í dag svaraði hann: „Ég mun bíða þess að skýrslan verði birt."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert