Áfengislög í Svíþjóð tekin fyrir af Evrópudómstólnum

Réttað verður um sænska áfengislöggjöf fyrir Evrópudómstólnum.
Réttað verður um sænska áfengislöggjöf fyrir Evrópudómstólnum. AP

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins (ESB) ætlar að höfða mál gegn sænska ríkinu, vegna gildandi áfengislaga í Svíþjóð. Lögin gera sænskum borgurum ókleift að panta sér áfengi erlendis frá, svo sem með því að nota Netið, að því er fram kemur í fréttabréfi sænska þingsins. Samkvæmt sænskum áfengislögum hefur ríkið einkarétt á innflutningi áfengis.

Framkvæmdastjórn ESB segir að einkaréttur sænska ríkisins á að flytja inn áfengi, samræmist ekki reglum ESB um frjálst flæði vöru milli aðildarríkja sambandsins. Sænsk stjórnvöld halda því hins vegar fram að einkasala ríkisins á áfengi sé nauðsynleg af heilsuverndarástæðum og til þess að gæta þess að aldurstakmörk til áfengiskaupa séu virt. Þá telja stjórnvöld í Svíþjóð mikilvægt að gæta þess að skattar séu greiddir af innflutningunum.

Einokun sænskra stjórnvalda á áfengisinnflutningi til Svíþjóðar hefur margoft verið tekin fyrir milli sænsku stjórnarinnar og framkvæmdastjórnar ESB, en hingað til hefur ekki náðst samkomulag um málið.

Að því er fram kemur í fréttabréfi sænska þingsins, hefur framkvæmdastjórnin ákveðið að fara með málið fyrir Evrópudómstólinn. Þar segir að sendinefnd Svía í Brussel hafi verið gert viðvart um þessa ætlan framkvæmdastjórnarinnar, en að lagaskjöl hafi enn ekki verið lögð fyrir dóminn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert