Nærri 1000 manns tóku þátt í kröfugöngu í Bagdad í dag, þar sem hvatt var til þess að Saddam Hussein, fyrrum forseti Íraks, og helstu samstarfsmenn hans verði teknir af lífi.
„Aflífið Saddam og flokk hans, við berjumst fyrir friði og frelsi,“ kallaði fólkið þar sem það gekk niður aðalgötu Bagdad og hélt uppi myndum af ættingjum sínum, sem teknir voru af lífi á valdatíma Saddams. Einnig voru erlendir lögfræðingar, sem hefðu í hyggju að koma til Íraks til að verja Saddam, hvattir að halda sig fjarri.
Hafði lögregla auga með mótmælunum, sem voru skipulögð af ýmsum stjórnmálaflokkum, þar á meðal flokki Iyads Allawis forsætisráðherra bráðabirgðastjórnar landsins. Allt fór friðsamlega fram, að sögn lögreglu í Bagdad.
Á sama tíma mótmæltu einnig um 500 manns í borginni Najaf undir sömu slagorðum.