Þær 200 milljónir kvenna sem búsettar eru í Evrópu hafa fengið nýjan talsmann er þingmaður breska Sjálfstæðisflokksins, UKIP, tók sæti á þingmannasamkundu Evrópusambandsins á þriðjudag, að því er segir í frétt Guardian. Godfrey Bloom lýsti yfir: „Ég vil koma að málefnum kvenna vegna þess að mér finnst þær ekki þrífa nógu vel á bak við ísskápana.“
Bloom er einn ellefu þingmanna UKIP sem sitja á Evrópuþinginu í Strassborg. Ummæli hans er hann tók sæti á þriðjudag í nefnd um réttindi kvenna vöktu nokkra furðu en hann sagði: „Ég ætla að tala fyrir réttindum karla.“
Fyrir þær konur sem velta því fyrir sér, hvers vegna maður sem aðhyllist þær skoðanir varðandi konur sem Bloom gerir, skuli ákveða að verða talsmaður þeirra, þá segir þingmaðurinn að umboð sitt væri skýrt: „Ég er hér sem fulltrúi kvenna í Yorkshire, sem hafa alltaf kvöldmat á borðum þegar maður kemur heim.“
Þó svo að andi Amy Johnson, Bronte-systra og annarra þekktra Yorkshire-kvenna svífi yfir vötnum, lét Bloom engan bilbug á sér finna og sagði í sjónvarpi: „Aukin réttindi kvenna hindra þær í atvinnulífinu. Enginn kaupsýslumaður í smáfyrirtæki sem er með sjálfsvirðinguna í lagi og heilabúið á réttum stað, myndi nokkurn tímann ráða til vinnu konu á barneignaaldri.“ Bloom starfar fyrir fjárfestingarfyrirtæki í Lundúnum.
Fjöldi þingmanna, einkum í hópi kvenna, hefur andmælt Bloom. Þingmaðurinn Glenys Kinnock kallaði hann Neanderthalmanninn og sagði hann ógnvekjandi. Þá lagði Mary Honeyball, þingmaður Verkamannaflokksins, til að gerð yrði rannsókn á starfsháttum fyrirtækis hans einkum hvað varðar mismunun gagnvart konum.