Japönsk yfirvöld ákváðu í fyrradag að hafna áfrýjunarbeiðni Bobbys Fischers, fyrrum heimsmeistara í skák, og framselja hann til Bandaríkjanna.
Ákvörðunin var tekin eftir tveggja daga yfirheyrslur yfir skákmeistaranum, að sögn John Bosnitch, kanadísks blaðamanns, sem var ráðgjafi Fischers meðan á yfirheyrslunum stóð.
"Hann lítur á þessa þrekraun í heild sinni sem hreinasta mannrán, algjörlega ólöglega aðgerð bæði af hálfu Bandaríkjanna og Japana," sagði Bosnitch. Fischer haldi því fram að hann hafi verið beittur ofbeldi. "Hann var marinn í andliti og það sáust bólgurákir á handleggjum hans," sagði Bosnitch.
Fischer hefur rétt á því að áfrýja öðru sinni, að þessu sinni til dómsmálaráðherra Japans og rennur frestur til þess út á föstudag. Hann var handtekinn á alþjóðaflugvelli í Japan fyrir tveimur vikum með ógilt vegabréf.
Fischer er eftirlýstur í Bandaríkjunum fyrir að hafa teflt við Boris Spasskí í Júgóslavíu árið 1992 og þar með brotið alþjóðlegt viðskiptabann sem hvíldi á landinu.
Stjórn Skáksambands Íslands skoraði á forseta Bandaríkjanna að fella niður ákærur á hendur Fischer föstudaginn s.l. og bað utanríkisráðuneyti Íslands að koma sjónarmiðum sambandsins á framfæri við Bandaríkjastjórn.
Gunnar Snorri Gunnarsson, ráðuneytisstjóri í utanríkisráðuneytinu, segir bestu kveðjum hafa verið komið til Fischers og honum vottuð virðing Íslendinga. Málið sé í þeim farvegi að íslensk stjórnvöld geti ekki gripið inn í það að öðru leyti en því, að koma á framfæri við bandarísk stjórnvöld og Fischer sjálfan, að hann sé mikilsvirtur af Íslendingum fyrir framlag sitt til skáklistarinnar hér á landi. Fischer háði frægt skákeinvígi við þáverandi heimsmeistara, Borís Spasskí, í Reykjavík árið 1972 og bar sigur úr býtum.
Gunnar bendir á að Sameinuðu þjóðirnar, og þ.a.l. Ísland, hafi staðið að viðskiptabanninu á Júgóslavíu á sínum tíma og það beri að virða. Ekki sé flötur á frekari aðgerðum af hálfu utanríkisráðuneytisins. Málið sé í höndum Bandaríkjanna og þeirra því svigrúmið að taka tillit til breyttra aðstæðna og sýna Fischer ákveðna mildi.
Tókýó. AP.