George W. Bush, forseti Bandaríkjanna hefur bætt fylgi sitt í Flórída og virðist hafa örlítið meira fylgi þar nú, en John Kerry, mótframbjóðandi hans úr röðum demókrata. Þetta kemur fram í skoðanakönnun sem birt er í dag, en samkvæmt henni munar svo litlu á fylgi frambjóðendanna, að vafasamt er enn að spá um úrslit.
Um 48% þátttakenda í könnuninni sögðust styðja Bush, en um 46% lýstu yfir stuðningi við Kerry, samkvæmt könnuninni, sem birtist í blaðinu Miami Herald í dag. Í svipaðri könnun sem framkvæmd var í ríkinu í mars, hafði Kerry um 5% forskot á Bush.
Næstum 6 af 10 þátttakendum í könnuninni sögðu forsetann vera sterkan leiðtoga. „John Kerry er ekki á sama skriði og hann var í vor og þetta hefur leitt til þess að Bush nýtur nú örlítið meira fylgis,“ sagði Rob Schroth, sérfræðingur í skoðanakönnunum í samtali við Miami Herald.
Tölurnar benda þó til þess að enn eigi báðir frambjóðendur möguleika á sigri í Flórída, enda mældist forskot Bush innan 3,5% skekkjumarka, sem sett voru.
Umdeildur sigur Bush í Flórída-ríki í kosningunum árið 2000, varð til þess að hann sigraði í forsetakosningunum.
Könnunin var framkvæmd af tveimur fyrirtækjum, öðru á vegum repúblikana og hinu hliðhollu demókrötum. Um 800 skráðir kjósendur tóku þátt í henni og hún var framkvæmd daga 22 til 25. ágúst.