322 látnir eftir blóðugan endi gíslatöku í Beslan

Vladímír Pútín heimsótti Beslan í dag. Hér er hann hjá …
Vladímír Pútín heimsótti Beslan í dag. Hér er hann hjá einu fórnarlamba gíslatökunnar á sjúkrahúsi í Beslan. AP

322 einstaklingar, þar af 155 börn eru látin eftir að þriggja daga umsátri í skóla í Beslan í suðurhluta Rússlands, í nágrenni Tétsníu, lauk í gær með miklum blóðsúthellingum. Sergei Fridinskí, aðstoðarríkissaksóknari í Rússlandi, greindi frá þessu í dag. „Við erum enn að bera kennsl á lík. Við höfum fundið 322 lík, en 155 eru af börnum,“ sagði Fridinskí í samtali við blaðamenn.

„Þetta eru ekki lokatölur, sennilega eru fleiri látnir en þetta, en þó ekki miklu fleiri,“ bætti hann við.

Fridinskí sagði jafnframt að 26 gíslatökumenn hefðu verið drepnir í bardögunum í gær.

Fjöldi látinna í Beslan er meiri en í nokkru öðru gíslatökumáli í sögu Rússlands, en í Tétsníu hefur aðskilnaðarstríð staðið yfir í meira en áratug.

Þriggja daga umsátri um skólann lauk með blóðsúthellingum sem fjölmiðlar hafa lýst sem „því versta sem hefði getað gerst.“ Hálfnakin, blóðug börn flúðu út úr skólanum og lík voru borin út úr byggingunni. Í morgun var enn verið að bera lík út úr leikfimisal þar sem gíslunum var haldið af uppreisnarmönnum sem kröfðust sjálfstæðis Tétsníu.

Íbúar Ossetíu skoða lista yfir þá sem tókst að komast …
Íbúar Ossetíu skoða lista yfir þá sem tókst að komast út úr skólanum í gær, þegar umsátrinu lauk með blóðsúthellingum. AP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert