Ritstjóri Ísvestía rekinn

Ritstjóri rússneska dagblaðsins Izvestia var rekinn í dag, að því er rússneskir fjölmiðlar greina frá og hafa eftir heimildamönnum á ritstjórn blaðsins. Er brottrekstur ritstjórans sagður tengjast umfjöllun blaðsins á laugardaginn um harmleikinn í Beslan í Norður-Ossetíu.

Útvarpsstöðin Ekho Moskví, og aðrir rússneskir miðlar, sögðu að ritstjóranum, Raf Shakirov, hefði verið sagt upp í kjölfar þess að laugardagsblað Izvestia var undirlagt af stórum, áhrifamiklum myndum af særðum og látnum börnum og öðrum fórnarlömbum harmleiksins í barnaskóla númer eitt í bænum Beslan í Norður-Ossetíu, sem er sjálfstjórnarlýðveldi í Kákasushéruðunum í Suður-Rússlandi.

Izvestia var einn fyrsti fjölmiðillinn í Rússlandi sem dró í efa fullyrðingar stjórnvalda um að 350 gíslar væru í haldi mannræningja í barnaskólanum. Á laugardaginn sagði talsmaður stjórnvalda í Norður-Ossetíu að mannræningjarnir, sem voru úr liði tétsenskra aðskilnaðarsinna og kröfðust brottfarar rússnesks herliðs frá Tétsníu, hefðu tekið 1.181 gísl í skólanum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert