Rússneskir embættismenn hugleiða að taka upp dauðarefsingar á ný

Litaskipt aðvörunarkerfi, hert eftirlit með útlendingum og beiting dauðarefsinga á ný eru meðal þeirra tillagna sem rússneskir þingmenn hafa lagt fram í því skyni að auka öryggi í landinu í kjölfar hryðjuverkanna í Beslan í síðustu viku.

Þegar neðri deild rússneska þingsins, Dúman, kemur saman 22. september verða teknar þar til umfjöllunar ýmsar öryggisráðstafanir, þar á meðal hertar reglur um skráningu heimilisfanga útlendinga og komu þeirra og brottför frá landinu, auk nánara eftirlits með skrásetningu bifreiða. Greinir rússneska dagblaðið Gazeta frá þessu í dag.

Ýmsir hafa orðið til að krefjast þess að farið verði að beita dauðarefsingum á ný, en enn eru til lög um slíkt í Rússlandi þrátt fyrir að bann hafi verið sett við slíkum refsingum þegar Rússar gengu í mannréttindasamtök Evrópuráðsins 1997.

„Ég útiloka ekki að þingið muni afnema bann við beitingu dauðarefsinga þegar um er að ræða hryðjuverkamenn,“ segir Viktor Zavarzin, formaður varnarmálanefndar Dúmunnar.

Litaskipt aðvörunarkerfi svipað því sem notað hefur verið í Bandaríkjunum síðan 11. september 2001, verður meðal þeirra ráðstafana sem ræddar verða í Dúmunni, og sagði formaður öryggismálanefndar að þótt engin hefð væri fyrir slíku kerfi í Rússlandi og enginn lagalegur grundvöllur til væri ekki annað sýnna en þetta væri nauðsynlegt til að almenningur - „sem við höfum hvatt til að vera á verði gegn hryðjuverkum og verja hendur sínar“ - geti verið viðbúinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert