Þýsk mynd um Hitler hrífur áhorfendur og gagnrýnendur

Bruno Ganz þykir ótrúlega líkur Hitler í myndinni.
Bruno Ganz þykir ótrúlega líkur Hitler í myndinni. AP

Nýrri þýskri kvikmynd um síðustu daga Hitlers var ákaft fagnað á frumsýningu í Þýskalandi í gærkvöldi. Myndin byggir á frásögn ritara einræðisherrans og þykir sýna hann á afar raunsæjan hátt.

Svissneski leikarinn Bruno Ganz þykir vera óhugnanlega líkur Hitler í hlutverki sínu í myndinni, sem hefur fengið frábæra dóma. Sumir eru þó efins um að rétt sé að sýna Hitler sem mannveru, sérstaklega sé það varhugavert í þýskri kvikmynd.

Myndin heitir „Der Untergang“, eða Fallið í lauslegri þýðingu. Foringinn er sýndur þar sem hann klappar hundum og daðrar vingjarnlega við aðstoðarstúlkur sínar. Þá er hann sýndur taka æðiskast við skrifborð sitt þegar sovéski herinn nálgast Berlín, heimtandi að Þjóðverjar gefi ekki „lokasigur“ upp á bátinn.

Framleiðandi myndarinnar, Bernd Eichinger, segir að takmarkið hafi verið að forðast að gera einungis djöful úr Hitler. Leikstjórinn, Oliver Hirschbiegel, segir að tími hafi verið kominn til að kvikmynd sýndi nasistana frá þýsku sjónarhorni. „Þetta var fólk, ekki vélmenni, ekki geðklofasjúklingar heldur fólk með ótrúlega eyðileggjandi geðveiki,“ segir Eichinger. „Eðli mannsins er að hann getur jafnt verið skrímsli sem gert góðverk.“

Myndin, sem er 150 mínútur að lengd, hefst á 56 ára afmæli Hitlers 20. apríl 1945 og fylgir honum þar til hann fremur sjálfsmorð tíu dögum seinna ásamt Evu Braun, sem hann kvæntist degi áður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert