Fórnarlamba hryðjuverkanna 11. september minnst

Kona í New York syrgir fórnarlömb hryðjuverkanna þar fyrir þrem …
Kona í New York syrgir fórnarlömb hryðjuverkanna þar fyrir þrem árum. AP

Ástvinir þeirra sem létu lífið í World Trade Center fyrir þrem árum lásu í dag upp nöfn fórnarlambanna, og er það liður í minningarathöfnum sem fram fara í Bandaríkjunum. Einnar mínútu þagnir voru klukkan 8.46 og 9.03 í morgun (12.46 og 13.03 að íslenskum tíma) en þá var flugvélum flogið á tvíburaturnana í New York árið 2001. Þar létust 2.749. Þeirra 184 sem fórust þegar þriðju vélinni var flogið á Pentagon í Washington var minnst með þögn klukkan 9.37 (13.37 að íslenskum tíma). Í Pennsylvaníu var kirkjuklukkum hringt á þeirri stundu er fjórða vélin hrapaði til jarðar og 40 manns létu lífið.

Dagskráin í höfuðborg Bandaríkjanna hófst með bæna- og minningarstund í kirkju skammt frá Hvíta húsinu en forsetahjónin stýrðu síðan minningarathöfninni í Rósagarðinum þar sem m.a. var mínútu þögn til minningar um þá sem létust. George W. Bush forseti flytur í dag vikulegt útvarpsávarp sitt beint frá Hvíta húsinu og hefur ættingjum fórnarlamba árásanna, slökkviliðsmönnum og öðrum björgunarmönnum verið boðið þangað. Bush mun minnast þeirra sé létu lífið, þakka hermönnum sem berjast gegn hryðjuverkamönnum og lýsa ráðstöfunum sem gerðar hafa verið til að reyna að koma í veg fyrir frekari árásir af þessu tagi. Bush hefur skrifað undir yfirlýsingar um að 11. september verði bænadagur í Bandaríkjunum og að dagurinn verði nefndur föðurlandsvinadagurinn. John Kerry, forsetaefni demókrata, verður viðstaddur minningarathöfn í heimaborg sinni Boston.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert