Írönsk kona hefur stefnt manni sínum fyrir rétt og freistar þess að fá dómsúrskurð um að maðurinn fái ekki að berja hana nema einu sinni í viku en konan segir að maðurinn berji hana nú nánast daglega.
Íranska dagblaðið Mardomsalari hefur eftir konunni að maður hennar sé ofbeldisfullur og misþyrmi henni nánast daglega. „Ég hélt að hann myndi hætta eftir að við eignuðumst dóttur en ástandið versnaði," sagði konan, sem sögð er heita Maryam J.
Hún segist ekki vilja skilnað eða bætur. „Maðurinn minn er ofbeldisfullur. Það er eðli hans. Ég vil aðeins að hann lofi að berja mig aðeins einu sinni í viku," sagði konan fyrir réttinum. Segir blaðið að bæði dómarinn og áheyrendur hafi farið að hlægja.
Eiginmaðurinn viðurkenndi fyrir dómi að misþyrma konu sinni „öll kvöld."
„Ég ber hana vegna þess að kona á að óttast eiginmann sinn og með þessu móti neyði ég hana til að virða mig," hafði blaðið eftir manninum, en nafn hans var ekki gefið upp.
Að sögn blaðsins krafðist dómarinn þess að maðurinn gæfi skriflega yfirlýsingu um að hann muni hætta að misþyrma konu sinni.