Bush og Kerry ósammála um „val“ samkynhneigðra

Bush og Kerry í ræðustólum sínum í gærkvöldi.
Bush og Kerry í ræðustólum sínum í gærkvöldi. AP

Meðal þess sem George W. Bush, Bandaríkjaforseti, og John Kerry, öldungadeildarþingmaður, deildu um í gær í lokakappræðum vegna bandarísku forsetakosninganna, var staða samkynhneigðra. Frambjóðendurnir eru báðir andsnúnir hjónaböndum samkynhneigðra, en voru ósammála um hvort leyfa ætti einstökum ríkjum innan Bandaríkjanna að ráða því hvernig þau vildu haga málum hjá sér.

Frá þessu er greint í frétt Reuters. Þar kemur einnig fram að frambjóðendurnir voru heldur ekki sammála um það hvort fólk geti valið sér sjálft að vera samkynhneigt.

Kerry vísaði í tali sínu til Mary, dóttur Dick Cheneys, varaforseta, en hún er samkynhneigð. Færði hann rök fyrir því að fólk veldi ekki sjálft að vera samkynhneigt og sagði að einstök ríki hefðu sýnt að þau væru fullfær um að ráða sjálf hvernig þau vildu haga málum í tengslum við hjúskaparlög samkynhneigðra.

Bush, sem styður stjórnarskrárbreytingu þess efnis að hjónabönd fólks af sama kyni verði bönnuð útilokaði ekki að fólk gæti sjálft valið að vera samkynhneigt. Sagði hann stjórnarskrárbreytinguna nauðsynlega svo ekki verði „skorið úr um málið hjá dómstólum.“

„Spurðu dóttur Dick Cheneys“

Þegar spyrill kappræðnanna spurði Bush hvort hann teldi að fólk gæti valið að vera samkynhneigt, svaraði forsetinn: „Ég veit það bara ekki. Ég veit að við þurfum að velja þá leið í Bandaríkjunum að sýna fólki umburðarlyndi og virðingu. Það er mikilvægt að við gerum það.“

Sömu spurningu svaraði Kerry á þessa lund: „Ég held að ef þú ræddir við dóttur Dick Cheneys, sem er lesbía, myndi hún segja þér hún sé sú sem hún hefur ávallt verið, hún er sú sem hún var þegar hún fæddist. Ég held að ef þú spyrð fólk, komist þú að raun um að þetta er ekki val.“

Málefni samkynhneigðra hafa verið til umræðu fyrir forsetakosningarnar. Þau komust í umræðuna eftir dóm í Massachusetts þess efnis að hjónabönd samkynhneigðra skyldu leyfð í ríkinu.

Í allnokkrum ríkjum geta kjósendur kosið um bann gegn hjónaböndum samkynhneigðra um leið og þeir velja forseta, 2. nóvember næstkomandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert