Rússar þvertaka fyrir að hafa fjarlægt sprengiefnin

Al-Qaqaa vopnageymslan suður af Bagdad.
Al-Qaqaa vopnageymslan suður af Bagdad. AP

Rússar harðneita að hafa fjarlægt sprengiefni frá Írak fyrir innrás Bandaríkjamanna í mars 2003, eins og haldið var fram í Washington Times í dag. „Það er ómögulegt að telja svona fréttir vera annað en skáldað rugl,“ segir Vyacheslav Sedov, talsmaður rússneska varnarmálaráðuneytisins.

„Ég lýsi því hér með yfir að rússneska varnarmálaráðuneytið [...] getur ekki tengst þessum týndu sprengiefnum, þar sem rússneskt herlið yfirgaf Írak löngu fyrir hernaðaraðgerð Breta og Bandaríkjamanna í landinu,“ hefur Interfax eftir talsmanninum.

Washington Times hefur eftir starfsmanni bandaríska varnarmálaráðuneytisins að Rússar hafi „næstum örugglega“ fjarlægt 377 tonn af sprengiefnum úr Al-Qaqaa vopnageymslunni suður af Bagdad, áður en Bandaríkjamenn réðust inn í Írak. Hvarf sprengiefnanna hefur verið hitamál í kosningabaráttunni vestanhafs undanfarna daga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert