Allsherjarverkfall boðað á Ítalíu í dag

Búist er við að milljónir manna leggi niður vinnu á Ítalíu í dag til að mótmæla efnahagsstefnu ríkisstjórnar Silvios Berlusconis. Búast má við að samgöngur fari allar úr skorðum og á sjúkrahúsum er aðeins veitt neyðarþjónusta.

Verkalýðsfélög skipuleggja verkfallið til að mótmæla niðurskurði á fé til velferðarmála, sem gert er ráð fyrir í fjárlögum fyrir næsta ár. Er það m.a. gert til að mæta kröfum Evrópusambandsins um að Ítalir dragi úr fjárlagahalla og skuldum hins opinbera.

Hagfræðingar segja hins vegar að þær tillögur sem fyrir liggi, um skattalækkanir og minni útgjöld ríkisins, muni ekki gefa ítölsku efnahagslífi nauðsynlegan byr undir vængina.

Þetta er í fjórða skipti sem boðað er til allsherjarverkfalls á Ítalíu frá því Berlusconi tók við embætti forsætisráðherra árið 2001.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka