Listi Bandaríkjastjórnar yfir 45 „staðfastar þjóðir“ ekki lengur til

Bandarískur hermaður í borginni Mosul í Írak.
Bandarískur hermaður í borginni Mosul í Írak. AP

Hvíta húsið er hætt að nota listann yfir hinar 45 „staðföstu þjóðir“ sem lýstu stuðningi við innrás Bandaríkjamanna í Írak árið 2003, að því er greint er frá í frétt Reuters í dag. Háttsettur bandarískur embættismaður, sem ekki vildi segja til nafns, skýrði frá þessu í gær. Sagði hann að Hvíta húsið hefði sett fram annan og styttri lista yfir stuðningsþjóðir stríðsins í Írak, en á honum eru þau ríki sem lagt hafa til hermenn í Írak. Þetta hafi verið gert einhvern tíma eftir að ný bráðabirgðastjórn tók við völdum í Írak í júní í fyrra.

Embættismaðurinn gat ekki sagt til um hvenær eða af hverju bandarísk stjórnvöld hefðu ákveðið að hætta að notast við lista „hinna staðföstu þjóða.“

AFP-fréttastofan skýrði frá því seint í október í fyrra að listinn yfir hinar „viljugu þjóðir“ væri horfinn af vefsíðu Hvíta hússins, en þar var á sínum tíma hægt að skoða listann.

Í frétt Reuters er greint frá auglýsingu Þjóðarhreyfingarinnar, sem birt var í New York Times í gær. Fram kemur að samtökin hafi birt heilsíðuauglýsingu og krafist þess í henni að Ísland verði tekið af lista staðfastra þjóða og Írakar beðnir afsökunar á stuðningi Íslands við stefnu Bandaríkjastjórnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert