Norskir vísindamenn hafa komist að þeirri niðurstöðu að humar finni ekki til sársauka þegar hann er settur lifandi í sjóðandi vatn. Hefur lengi verið deilt um þetta en dýraverndunarsinnar segja að humar þjáist mikið þegar hann er soðinn og það að henda honum lifandi í sjóðandi vatn séu hreinar pyntingar.
Í niðurstöðum rannsóknarinnar, sem styrkt var af norskum stjórnvöldum og gerð af vísindamanni við háskólann í Osló, kemur fram, að humar og aðrir hryggleysingjar, eins og krabbar, sniglar og ormar finni líklega ekki til, jafnvel þótt t.d. humar brjótist um þegar hann er settur lifandi í sjóðandi vatn. „Humrar og krabbar hafa getu til að læra en það er ólíklegt að þeir finni sársauka,“ segir í niðurstöðunum. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna hvort ástæða væri til þess að láta lög um velferð dýra einnig ná yfir hryggleysingja en verið er að endurskoða núgildandi lög.
Líffræðingar í Maine í Bandaríkjunum hafa haldið því fram árum saman að frumstætt taugakerfi humarsins og vanþróaður heili hans séu svipuð og í skordýrum. Þegar humar sýni viðbrögð við áreiti, eins og sjóðandi vatni, séu það ósjálfráð varnarviðbrögð, ekki meðvituð viðbrögð eða merki um sársauka.
Karin Robertson, frá PETA-dýraverndunarsamtökunum, segir að norska könnunin sé hlutdræg þar sem stjórnvöld vilji ekki að fiskiðnaður landsins bíði skaða af niðurstöðum rannsókna. „Þetta er eins og þegar fyrirtæki í tóbaksiðnaðinum halda því fram að reykingar valdi ekki krabbameini,“ segir hún.
Dýraverndunarsamtök í Norfolk í Virginíu sem nefnast Ethical Treatment of Animals, berjast meðal annars fyrir því að fólk hætti að sjóða humar lifandi og hafa gefið út límmiða og bæklinga með slagorðum á borð við: „Það er sárt að láta sjóða sig. Leyfið humrum að lifa.“
Í norsku rannsókninni kemur fram að þrátt fyrir að það sé ólíklegt að krabbadýr finni sársauka, þurfi frekari rannsóknir til að komast að því. Lítil vísindaleg þekking sé til um málið.