Alhvít jörð blasti við íbúum Madrídar á Spáni þegar þeir fóru á fætur í morgun - en snjór er fremur sjaldséður í borginni. Um 10 sentimetra þykkt snjólag hafði fallið á sumum stöðum í borginni og nokkuð varð um umferðartafir af þessum völdum. Þá varð að fresta mörgum flugferðum vegna veðursins.
Tafir urðu á lestarferðum og umferðarhnútar mynduðust á götum borgarinnar. Einkasjónvarpsstöðin Telecinco sagði að ekki hefði snjóað meira í Madríd í áratug.
Um þriggja stiga frost var í borginni í nótt en í dag á að kólna þar enn frekar og er búist við allt að 9 stiga frosti þar seinna í dag.
Hætt var við um 19 flugferðir, bæði innanlands og til annarra landa, vegna veðursins, en vélarnar áttu að fara frá Barajas-flugvelli í borginni.
Einnig hefur snjóað í norðurhluta landsins og er ófært til margra afskekktra fjallaþorpa á Castilla y Leon-svæðinu af völdum þessa, að sögn spænskrar lögreglu.