Bandaríkjamenn gagnrýna Kínverja, Rússa og Sádi-Araba vegna mannréttindamála

Bandaríska utanríkisráðuneytið gagnrýnir ástand mannréttindamála í Kína og Rússlandi á nýliðnu ári en sendir einnig Sádi-Aröbum tóninn vegna kerfisbundinnar misbeitingar, m.a. pyntinga og handtökur án dóms og laga.

Kemur þetta fram í árlegri skýrslu ráðuneytisins um stöðu mannréttinda á heimsbyggðinni. Þar segir að stjórnvöld í Riyadh í Sádi-Arabíu hafi beitt sér fyrir ýmsum ráðstöfunum í lýðræðisátt. „Misbeitingar og mannréttindabrot uppræti hins vegar ávinninginn og gott betur,“ segir í skýrslunni.

„Áreiðanlegar upplýsingar hafa borist af pyntingum og illri meðferð öryggissveita á föngum, tilviljanakenndum handtökum og einangrunarvarðhaldi. Trúarbragðalögreglan hélt að kúga fólk og handtaka íbúa landsins sem útlendinga,“ segir í skýrslunni um ástandið í Sádi-Arabíu.

Í henni er komist þannig að orði um Kína að „vonbrigðum“ valdi hversu litlar framfarir hafi orðið þar í landi í mannréttindamálum, m.a. vegna áframhaldandi fangelsunar andófsmanna.

Og gagnrýnt er hversu mikil valdasöfnun hefur átt sér stað innan Kremlarmúra í Rússlandi, einnig eru stjórnvöld gagnrýnd fyrir að klekkja á fjölmiðlum og fyrir að beita réttarkerfið pólitískum þrýstingi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert