Bandarískur hermaður hefur verið dæmdur í 45 daga fangelsi fyrir þátt sinn í að þvinga þrjá íraska borgara út í Tígris-fljótið í Írak. Herréttur í Fort Hood í Texas dæmdi Jack Saville sekan um árás á íraskan borgara í bænum Balad í desember 2003.
Atvikið átti sér stað eftir að mennirnir brutu útgöngubann hersins. Saksóknarar segja að Saville hafi skipað hermönnum sínum að þvinga tvo menn út í Tígris-fljótið en annar þeirra drukknaði. Þá hafi Saville horft aðgerðarlaus á þegar þriðji maðurinn var þvingaður út í ána.
Þá verður hann að greiða til baka tvo þriðju launa sinna í hernum í sex mánuði. Hann hefur tæplega 3.000 dollara í laun á mánuði eða um 175 þúsund íslenskra króna. Saksóknarar höfðu krafist þess að hann yrði rekinn úr hernum. Allt að níu og hálfs árs fangelsisvist liggur við glæpunum sem hann var dæmdur fyrir.