Ákvað að verða prestur meðan á seinna stríðinu stóð

Jóhannes Páll páfi II skömmu eftir að hann settist í …
Jóhannes Páll páfi II skömmu eftir að hann settist í páfastól. AP

Jóhannes Páll páfi II, sem hét Karol Vojtila, fæddist 18. maí 1920 í suður-pólsku smáborginni Wadowice og missti móður sína ungur að aldri. Hann ákvað að verða prestur meðan á síðari heimsstyrjöld stóð og var vígður árið 1946. Hann var sendur til framhaldsnáms í Róm og nam heimspeki. Þegar hann kom aftur til Póllands varð hann dósent við guðfræðideildina í Kraká og seinna varð hann prófessor við kaþólska háskólann í Lublin.

Árið 1958 var Vojtila skipaður vígslubiskup í Kraká og þáði biskupsvígslu. Árið 1964 var hann svo skipaður erkibiskup í Kraká og 1967 kardínáli. Hann var þá yngsti kardínáli kirkjunnar. Árið 1978 var hann síðan kjörinn páfi, aðeins 58 ára ára gamall. Hann var fyrsti páfinn í 455 ár sem ekki var af ítölsku bergi brotinn og einnig sá fyrsti frá Austur-Evrópu.

Karol Vojtila tók sér nafnið Jóhannes Páll II. Hann hefur alla tíð notið mikilla vinsælda bæði innan kaþólsku kirkjunnar sem utan. Hann leitaðist við að ná sambandi við venjulegt fólk og forðaðist prjál sem hafði einkennt marga fyrirrennara hans. Ferðir hans vöktu mikla athygli á kaþólsku kirkjunni en alls ferðaðist páfi til 129 landa og messaði yfir um 1 milljarði manna.

Ein fyrsta utanlandsferð hans var til Póllands. Þessi heimsókn örvaði Pólverja mjög til dáða en um þetta leyti varð Samstaða, samband óháðra verkalýðsfélaga, til og stóð fyrir andófi gegn kommúnistastjórn landsins.

Árið 1981 var páfi hætt kominn þegar Tyrkinn Mehmet Ali Aqca skaut á hann á Péturstorginu. Páfi lifði árásina af en þurfti að gangast undir umfangsmiklar aðgerðir sem höfðu mikil áhrif á heilsu hans.

Páfi hafði mikil áhrif á kenningar kaþólsku kirkjunnar og gaf m.a. út 13 páfabréf og skrifaði nokkrar bækur. Mörgum þóttu skoðanir hann íhaldssamar og hörð afstaða hans gegn getnaðarvörnum og því að konur tækju prestvígslu gerði marga fráhverfa kaþólsku kirkjunni.

Jóhannes Páll páfi átti viðræður við fjölda þjóðarleiðtoga, þar á meðal Bandaríkjaforsetana Ronald Reagan og Bill Clinton, Míkhaíl Gorbatsjev, leiðtoga Sovétríkjanna, Borís Jeltsín, forseta Rússa, Hirohito Japanskeisara, Elísabetu Englandsdrottningu, leiðtoga Ísraelsmanna og Araba. Páfagarður tók upp stjórnmálasamband við Ísrael árið 1993 og hann varð fyrstur páfa til að biðast fyrir í bænahúsi gyðinga árið 1986.

Á tíunda áratugnum fór heilsu páfa mjög að hraka. Hann þjáðist af Parkinsonveiki, liðagigt og öðrum sjúkdómum. Hann hélt samt ótrauður áfram ferðalögum, heimsótti m.a. Kúbu og tók þátt í fjölda athafna víða um heim árið 2000. Síðustu utanlandsferðina fór hann í ágúst á síðasta ári þegar hann heimsótti Lourdes í Frakklandi.

Páfi fer með bæn fyrir fund með Romano Prodi, forseta …
Páfi fer með bæn fyrir fund með Romano Prodi, forseta framkvæmdastjórnar ESB, í Róm í október sl. ap
Páfi kyssir barnskoll í Vatikaninu í fyrrasumar.
Páfi kyssir barnskoll í Vatikaninu í fyrrasumar. ap
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert