Ítalska fréttastofan ANSA vitnar í lækna sem tengdir eru páfagarði að Jóhannes Páll páfi annar sé smám saman að missa meðvitund og líðan hans muni einungis hraka úr þessu. Blaðafulltrúi Vatikansins tilkynnti rétt í þessu að páfi hafi fengið mjög háan hita í dag og sé ástand hans mjög alvarlegt.
Í tilkynningu Joaquin Navarro-Valls, blaðafulltrúa Vatikansins, sagði að páfi sýni enn viðbrögð er á hann væri yrt. Þykir það stangast á við frétt ANSA.
Navarro-Valls sagði á fundi með fréttamönnum í morgun, að páfi hefði fyrr um morguninn sýnt fyrstu merki þess að hann væri að missa meðvitund. Þó hafi hann ekki verið í dái og verið viðstaddur messu í morgun.
Navarro-Valls sagði að páfi opnaði augun þegar ávarpaður væri og hafi sjálfur talað við viðstadda í gærkvöldi. Hann sagði hjarta- og nýrnastarfsemi smám saman fjara út og andardráttur hans væri grunnur. Boðaði Navarro-Valls nýja tilkynningu um líðan páfa klukkan 18 að ítölskum tíma í kvöld, klukkan 16 að íslenskum tíma. Henni seinkaði um rúma hálfa aðra klukkustund.